Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 403  —  152. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem varða svokallaða kolvetnisstarfsemi, þ.e. lögum nr. 13/2001, sem fjalla um leit, rannsóknir og vinnslu á jarðolíu og jarðgasi í efnahagslögsögunni, skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004, og lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.
    Meginmarkmið þessa bandorms er að gera breytingar á alls sex lögum að ósk hagsmunaaðila í olíuiðnaði „sem starfa á vettvangi olíumála og búa yfir viðamikilli sérþekkingu á þessu sviði,“ eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið. Iðnaðarráðuneytið hefur notið aðstoðar, upplýsinga og ráðlegginga frá viðkomandi hagsmunaaðilum en láðist við undirbúning málsins að hafa nægilegt samráð við Skipulagsstofnun og sveitarfélögin í landinu og er það ámælisvert.
    Lögin sem varða leit, rannsóknir og vinnslu á jarðolíu og/eða jarðgasi voru upphaflega sett á árinu 2001 en var breytt talsvert með lögum nr. 49/2007. Lög þessi heyra eðli máls samkvæmt undir iðnaðarráðuneytið en frumvarpið tekur einnig til breytinga á lögum sem heyra undir umhverfisráðuneytið, þ.e. lögum sem varða skipulagsmál, brunavarnir og mengunarvarnir. Telur minni hlutinn að þær breytingar hefðu með réttu átt að vera á forræði umhverfisráðuneytis og umhverfisnefndar þingsins sem einungis var veittur umsagnarréttur þar um. Sú ráðstöfun er óásættanleg þar sem umhverfisþættir málsins eru vanreifaðir og illa undirbúnir af frumvarpshöfundum.
    Það er mat minni hlutans að hér sé fremur farið fram af kappi en forsjá og enda þótt breytingar þær sem gerðar hafa verið á frumvarpinu í meðförum nefndarinnar séu til hins betra, hefði nefndin að ósekju mátt leggja meiri vinnu í þær og vinna þær í náinni samvinnu við umhverfisnefnd þingsins. Engin haldbær rök hafa komið fram um nauðsyn þess að afgreiða frumvarpið fyrir jólahlé, aðeins yfirlýsing ráðuneytisins um að búið sé að "tilkynna" að leyfi til olíuleitar á svonefndu Drekasvæði verði boðin út 15. janúar nk. Þrýstingur af því tagi á vinnu þingnefndar er að mati minni hlutans ómálefnalegur. Ljóst er einnig að ná hefði mátt betri sátt um lausn ágreinings sem frumvarpið kveikti með víðtækara samráði og meiri vinnu en hinn knappi tímarammi ráðuneytisins leyfði.
    Hraðinn við afgreiðslu málsins er heldur ekki í neinu samræmi við þann veruleika sem við blasir og vandséð að olíuvinnsla hefjist á Drekasvæði eða annars staðar í lögsögu Íslendinga fyrr en eftir allmörg ár. Hvetur minni hlutinn til þess að menn gæti hófs í yfirlýsingum sínum og kyndi ekki undir væntingum um skjótfenginn gróða af olíuiðnaði og mikinn fjölda starfa sem honum kunni að fylgja. Ábyrgð Íslendinga í umhverfismálum, ekki síst hvað varðar lofthjúp jarðar og breytingar á honum, verður að vera í fyrirrúmi þegar teknar eru ákvarðanir sem varða orkuvinnslu og orkunýtingu. Þá eru Íslendingar samábyrgir varðandi umhverfisvernd á heimskautasvæðum gegnum Norðurheimskautsráðið.
    Stjórnvöld mega ekki missa sjónar á mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa og sjálfbærri nýtingu þeirra þótt olíuvinnslufyrirtæki utan úr heimi banki upp á og vilja auka framleiðslu sína með samstarfi við Ísland. Minni hlutinn tekur undir það álit minni hluta umhverfisnefndar að ekki sé sjálfgefið að Íslendingar leggi nú út á þær brautir að bora eftir olíu á botni Norður-Íshafsins og að ákvörðun um að útboð á leyfum til slíks hefði þurft ítarlegri umfjöllun.
    Hér er um að ræða frumvarp um auðlindir sem eru í sameign þjóðarinnar, sbr. lög nr. 73/1990, um auðlindir hafsbotnsins, og eins og ætíð er það vandmeðfarið hvernig hagsmuna eigendanna, þ.e. almennings í landinu, er gætt bæði hvað varðar leyfisveitingar sem slíkar, framsal á nýtingu auðlindarinnar og gjaldtöku fyrir nýtingu hennar.
    Minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við þær breytingar sem gerðar eru á gjaldtökuheimildum fyrir leyfi til rannsókna og vinnslu á jarðolíu og jarðgasi en bendir á þann möguleika að í stað ákvæðis í 11. gr. um að taka stighækkandi gjald fyrir leyfi til rannsókna og vinnslu gæti ríkið myndað eignarhlut í slíkum fyrirtækjum. Ábendingar þar um komu fram í umræðum þegar lögunum var breytt í mars 2007 og aftur núna en voru ekki ræddar í nefndinni.
    Í 5. gr. frumvarpsins er nýmæli sem heimilar ráðherra að stofna hlutafélag til að gæta hagsmuna ríkisins af olíu- og/eða gasvinnslu. Er í frumvarpinu tekið mið af norska ríkishlutafélaginu Petoro AS sem ólíkt StatoilHydro tekur ekki beinan þátt í olíuvinnslu. Þessi leið er ekki einboðin og bendir minni hlutinn á mikinn ávinning Norðmanna af uppbyggingu StatoilHydro en frá upphafi stýrðu Norðmenn olíuvinnslu sinni í farveg sem miðaði að því að byggja upp þekkingu og aðild innlendra aðila að rannsóknum og vinnslu olíu. Þar hafa menn ekki verið feimnir við að beita ríkisvaldinu til að tryggja að í höndum Norðmanna sjálfra yrði til öflugur iðnaður á þessu sviði. Danir völdu hins vegar að fara aðra leið þegar þeir framseldu réttindi sín í Norðursjó í hendur einkaaðila. Þar í landi hefur ekki byggst upp viðlíka iðnaður og þekking sem í Noregi. Þetta atriði hefði þurft nánari skoðunar við í nefndinni sem og félagsformið.
    Í meðförum nefndarinnar var litið til ákvæða norskra laga sem tryggja að þjónusta við þá sem leita að, rannsaka eða vinna jarðolíu og/eða jarðgas fari fram frá höfn í Noregi og var samstaða um það í nefndinni að svo skyldi einnig vera hér á landi og er þar átt við t.d. þjónustu, rekstur og áhafnaskipti.
    Þá var í meðförum nefndarinnar litið til fordæmis Færeyinga sem hafa stofnað menntunar- og rannsóknasjóð með framlögum frá olíuleitarfyrirtækjum. Var samstaða um það í nefndinni að fara skyldi svipaða leið hér á landi. Telur minni hlutinn það til mikilla bóta en hefði kosið að slíkum framlögum væri ætlað að efla rannsóknasjóði, rannsóknastofnanir og háskóla sem fyrir eru en um það náðist ekki samkomulag í nefndinni.
    Stærsti hluti frumvarpsins fjallar um lög sem eru á forræði umhverfisráðuneytis, þ.e. lög um skipulagsmál, mengunarvarnir og brunavarnir. Rannsóknir og vinnsla á jarðolíu og jarðgasi geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á lífríki úthafsins sem og strandsvæða og mikilvægt að lög um hollustuhætti og mengunarvarnir taki til þeirrar starfsemi sem hér er fjallað um, sem og flutninga jarðolíu og unninnar olíu í efnahagslögsögunni. Sama á við um ákvæði laga um brunavarnir. Minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við þessi atriði að öðru leyti en því að betur hefði farið á því að fjalla einnig um áhrif á andrúmsloftið, sbr. áhrif á haf og hafsbotn, m.a. með tilliti til nýlegra laga um losun gróðurhúsalofttegunda.
    Helstu athugasemdir sem nefndinni bárust vörðuðu aðkomu Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna að skipulagsgerð, útgáfu framkvæmdar- og byggingarleyfa og eftirlit en vegna ónógs undirbúnings og þess kapps sem iðnaðarráðuneytið lagði á að hraða afgreiðslu málsins gafst nefndin upp fyrir því verkefni að breyta skipulags- og byggingarlögum eins og frumvarpið gerði ráð fyrir og vísaði því til frekari vinnu í iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Á henni að ljúka fyrir 1. janúar 2010. Telur minni hlutinn ófullnægjandi að sveitarfélögum og ráðuneyti sveitarstjórnarmála skuli ekki tryggð bein aðkoma að þeirri vinnu.
    Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldið hafa um árabil deilt um forræði á skipulagi strandsvæðanna en lögsagnarumdæmi sveitarfélaga ná samkvæmt núgildandi lögum á haf út innan netlaga, þ.e. 115 metra frá stórstraumsfjöruborði lands, hólma og eyja sem tilheyra bújörðum. Miklu skiptir hvers konar starfsemi og framkvæmdir eru leyfðar uppi í landsteinum og á hafsbotni við strendur landsins enda geta þær haft víðtæk áhrif eins og dæmi sanna m.a. frá efnistöku og fiskeldi. Sambandið og þau sveitarfélög sem sendu inn umsagnir og komu á fund nefndarinnar lögðust eindregið gegn ákvæðum frumvarpsins um breytingar á skipulagslögum og lögðu til að forræði sveitarfélags til skipulags með ströndum næði til einnar sjómílu utan við grunnlínupunkta. Er þar vísað til norskra laga en með þessu móti yrði forræði sveitarfélaga yfir skipulagi sem lýtur að fiskeldi, lagningu sæstrengja og vatnslagna, efnistöku, náttúruvernd o.fl. tryggt á hafsbotni og strandsvæðum innan fjarða sem á landi. Skipulagsstofnun og fleiri umsagnaraðilar lögðust einnig gegn ákvæðunum en stofnuninni var ætlað að vinna skipulagstillögur, veita byggingar- og framkvæmdarleyfi og hafa eftirlit með sömu þáttum. Niðurstaða ráðuneytisins sem meiri hluti iðnaðarnefndar gerir að sinni er að veita Orkustofnun skipulagsvaldið utan netlaga þegar um er að ræða jarðolíu- og/eða jarðgasvinnslu, þó þannig að ef um er að ræða framkvæmdir á svæði sem er innan við eina sjómílu utan netalaga skuli Orkustofnun leita umsagnar viðkomandi sveitarfélags eða sveitarfélaga. Þetta telur minni hlutinn algerlega ófullnægjandi niðurstöðu og harmar að ekki gefist tími til að leita álits Sambands íslenskra sveitarfélaga eða ráðuneytis sveitarstjórnarmála um þetta atriði.
    Minni hlutinn telur að málið sé ekki fullunnið, að þrýstingur sá sem iðnaðarráðuneyti leggur á afgreiðslu þess fyrir jólahlé sé ekki í samræmi við þær kröfur sem gera verður til vandaðrar vinnu í nefndum þingsins. Málið varðar ekki aðeins iðnaðarnefnd, heldur einnig umhverfisnefnd, samgöngunefnd og efnahags- og skattanefnd. Þessar nefndir hefðu þurft að fá tóm til að fara yfir málið í sameiningu. Þing mun koma saman 12. janúar á nýju ári og víst er að ekki verður héraðsbrestur þótt fyrirhugað útboð á olíuleitarleyfum dragist um einn mánuð eða svo. Hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur, sbr. reynslu Færeyinga af olíuleit á sínu landgrunni.
    Minni hlutinn vill freista þess að málinu verði breytt milli umræðna og það unnið með þeim hætti að þingið hafi fullan sóma. Minni hlutinn áskilur sér rétt til að gera breytingartillögur við 3. umræðu málsins, m.a. um heiti laganna og notkun orðsins kolvetni, sem í daglegu tali og orðabókum er samheiti yfir sykrur en ekki olíur og gas. Verði ekki fallist á þessi tilmæli telur minni hlutinn sér ekki fært að samþykkja frumvarpið með vísan til framangreinds rökstuðnings.

Alþingi, 18. des. 2008.

Álfheiður Ingadóttir.